Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 343/2023-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 343/2023

Föstudaginn 6. október 2023

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 12. júlí 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 11. apríl 2023, um að synja beiðni hans um afturvirkar greiðslur atvinnuleysisbóta.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 14. febrúar 2023. Með ákvörðun, dags. 14. mars 2023, var kæranda tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt. Sama dag óskaði kærandi eftir því að umsókn hans um atvinnuleysisbætur yrði miðuð við lok námsannar 2022 í stað umsóknardags. Þeirri beiðni kæranda var synjað með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 11. apríl 2023.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 12. júlí 2023. Með bréfi, dags. 26. júlí 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 24. ágúst 2023, og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 25. ágúst 2023. Athugasemdir bárust frá kæranda 28. ágúst 2023 og voru þær kynntar Vinnumálastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 29. ágúst 2023. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann kæri ákvörðun Vinnumálastofnunar um að miða ekki við hefðbundna námsönn heldur vörn ritgerðar. Kærandi hafi óskað eftir að dagsetningu umsóknar hans um atvinnuleysisbætur frá 14. febrúar 2023 yrði breytt í lok námsannar í desember 2022 eftir ábendingu frá lögfræðingi Greiðslustofu um að hann hefði fengið rangar upplýsingar frá starfsmanni Vinnumálastofnunar um mögulega dagsetningu til þess að sækja um atvinnuleysisbætur eftir nám. Kæranda hafi verið sagt af starfsmanni Vinnumálastofnunar að hann gæti ekki sótt um bætur fyrr en eftir vörn meistararitgerðar en lögmaður hjá Greiðslustofu hafi síðar sagt honum að það væri rangt og að engin fordæmi væru fyrir slíku, miða ætti við námsönn eins og alltaf væri gert.

Í athugasemdum kæranda kemur fram að honum hafi í samtali við starfsmann Vinnumálastofnunnar þann 28. nóvember 2022 verið sagt að hann mætti ekki sækja um atvinnuleysisbætur fyrr en eftir vörn ritgerðar. Eftir þessum leiðbeiningum hafi kærandi farið og því aftur sótt um bætur þann dag. Síðar í samtali við lögfræðing Greiðslustofu með 13 ára stafsaldur hafi komið í ljós að þessar leiðbeiningar hafi verið rangar og engin fordæmi væru fyrir því að hann hefði ekki mátt sækja um bætur aftur að lokinni hefðbundinni námsönn.

Kærandi hafi því fengið rangar upplýsingar frá Vinnumálastofnun sem hann hafi farið eftir. Kærandi geti ekki séð hvernig hægt sé að synja umsókninni á þeim forsendum að hann hefði átt að draga upplýsingar starfsfólks Vinnumálastofnunnar í efa og hafa samband aftur til þess að sannreyna þær upplýsingar sem hann hafi fengið. Að mati kæranda sé þetta ótrúleg niðurstaða þar sem honum sé gert að sæta refsingu fyrir að fara eftir leiðbeiningum Vinnumálastofnunnar. Samkvæmt þessu virðist fólk almennt þurfa að staðfesta áðurfengnar upplýsingar frá stofnunninni frá öðru starfsfólki til þess að sannreyna þær. Það sé algerlega óskiljanlegt.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi fyrst sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta þann 25. mars 2022 og umsóknin hafi verið samþykkt með erindi, dags. 20. apríl 2022. Í kjölfar reglulegrar samkeyrslu Vinnumálastofnunar við menntastofnanir hafi kæranda með erindi, dags. 15. nóvember 2022, verið tilkynnt ákvörðun um tveggja mánaða viðurlög vegna náms sem hann stundaði samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta. Sú ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafi verið skráður í nám við Háskólann á Bifröst og hafi lokið þaðan 90 ECTS-eininga námi í B með brautskráningu í febrúar 2023.

Kærandi hafi aftur sótt um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun með umsókn, dags. 14. febrúar 2023. Þann 2. mars 2023 hafi kærandi spurst fyrir um nám samhliða atvinnuleysisbótum þar sem hann hafi þá verið skráður í 12 ECTS-eininga nám í C við Háskólann á Bifröst á vorönn 2023. Umrætt nám sé námsleið sem nemendur geti stundað samhliða vinnu. Þann 13. mars 2023 hafi kæranda verið tilkynnt að honum væri heimilt að stunda 12 ECTS-eininga nám samhliða atvinnuleysisbótum og degi síðar hafi umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur verið samþykkt, eða þann 14. mars 2023. Kærandi hafi haft samband við Vinnumálastofnun sama dag og umsókn hans hafi verið samþykkt en þá hafi hann enn átt eftir ótekinn biðtíma sem honum hafi verið gert að sæta með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 15. nóvember 2022. Kærandi hafi verið upplýstur um stöðu mála og að hann væri á tveggja mánaða biðtíma vegna viðurlaga í kjölfar námsmannasamkeyrslu. Kæranda hafi verið leiðbeint um kæruferli og bent á möguleika á því að óska eftir breytingu á upphafsdegi umsóknar. Beiðni kæranda um að fá greiddar atvinnuleysisbætur aftur fyrir umsóknardag hafi verið hafnað þann 11. apríl 2023.

Með kæru, dags. 17. mars 2023, hafi ákvörðun Vinnumálastofnunar um viðurlög á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, dags. 15. nóvember 2022, verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. mál nr. 155/2023. Nefndin hafi óskað eftir málsgögnum Vinnumálastofnunar í máli kæranda þann 13. apríl og síðar kveðið upp úrskurð um frávísun málsins þann 25. maí 2023 sökum þess að kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra barst nefndinni.

Þann 12. júlí 2023 hafi borist önnur kæra til úrskurðarnefndarinnar. Af kröfum og málatilbúnaði virðist kæra fela í sér beiðni um að kærunefndin taki málið fyrir að nýju. Kröfur kæranda snúi að meginstefnu að því að hann fái greiddar atvinnuleysisbætur frá upphafi árs 2023 í stað 14. febrúar 2023. Sambærilegar kröfur hafi einnig verið settar fram í kæru hans til nefndarinnar í máli nr. 155/2023. Í kærunni komi fram að kærandi hafi eftir samtal við lögfræðing hjá Greiðslustofu Vinnumálastofnunar í mars 2023 áttað sig á því að hann hefði mögulega getað sótt um atvinnuleysisbætur fyrr. Kærandi telji að hann hafi fengið rangar upplýsingar frá starfsmanni stofnunarinnar um það hvenær hann gæti sótt um atvinnuleysisbætur hjá stofnuninni. Kærandi segi að honum hafi verið tjáð að hann gæti ekki sótt um bætur fyrr en eftir að vörn lokaritgerðar hans væri afstaðin. 

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Í 1. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi að launamönnum og sjálfstætt starfandi einstaklingum sé heimilt að sækja um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar þegar þeir verði atvinnulausir. Þá segi í 1. mgr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar:

,,Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum getur átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í 30 mánuði frá þeim degi er Vinnumálastofnun tók við umsókn hans um atvinnuleysisbætur nema annað leiði af lögum þessum.“

Í athugasemdum við 29. gr. frumvarps þess sem hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar komi fram að miðað sé við að það tímabil sem atvinnuleysisbætur séu greiddar hefjist þegar Vinnumálastofnun taki við umsókn um atvinnuleysisbætur. Eðli máls samkvæmt sé það grundvallarskilyrði fyrir því að eiga rétt á greiðslu atvinnuleysistrygginga að hinn tryggði sæki um slíkt með umsókn til Vinnumálastofnunar. Vinnumálastofnun telji sér almennt ekki heimilt að greiða atvinnuleysisbætur aftur fyrir umsókn atvinnuleitanda um atvinnuleysisbætur.

Ljóst sé að Vinnumálastofnun hafi tekið við umsókn kæranda þann 14. febrúar 2023. Kærandi telji sig hafa fengið rangar upplýsingar frá starfsmanni Vinnumálastofnunar áður en hann hafi sótt um atvinnuleysisbætur. Kærandi virðist gera kröfu um það fyrir úrskurðarnefnd að umsókn hans um atvinnuleysistryggingar taki mið af 1. janúar 2023.

Við afgreiðslu beiðni kæranda um að fá greiddar atvinnuleysisbætur aftur fyrir umsóknardag hafi stofnunin kannað hvort kærandi hefði, áður en hann hafi sótt um greiðslur hjá stofnuninni, gert tilraun til að sækja um atvinnuleysisbætur, verið í sambandi við stofnunina eða fengið leiðbeiningar um upphafsdag umsóknar. Af samskiptasögu kæranda hjá stofnuninni megi sjá að kærandi hafi haft samband við Vinnumálastofnun þann 28. nóvember 2022 í kjölfar þess að honum hafi verið gert að sæta viðurlögum og synjað um áframhaldandi greiðslur atvinnuleysisbóta. Kærandi hafi tekið fram að hann væri alls ekki sáttur við niðurstöðuna og að hann hygðist senda inn beiðni um rökstuðning. Engin frekari samskipti séu skráð milli kæranda og fulltrúa stofnunarinnar eftir það eða þar til kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur aftur þann 14. febrúar 2023. Ekki verði séð að kærandi hafi sent fyrirspurnir um umsókn um atvinnuleysisbætur, sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta eða komið á skrifstofu stofnunarinnar fyrir það tímamark.

Kærandi hafi ekki tilgreint hvenær eða hvernig hann hafi haft samband við Vinnumálastofnun. Ekki sé útilokað að kærandi hafi verið í sambandi við stofnunina á þessum tíma án þess að gefa upp kennitölu eða persónuupplýsingar um sig. Almennar leiðbeiningar Vinnumálastofnunar til atvinnuleitenda um það hvenær skuli sækja um atvinnuleysibætur séu þær að unnt sé að sækja um hjá stofnuninni allt að mánuði áður en viðkomandi verði atvinnulaus að fullu eða hluta. Umsækjendur geti þó í fyrsta lagi fengið greiddar atvinnuleysisbætur frá og með þeim degi sem þeir geti hafið störf, þ.e. séu atvinnulausir. Á vefsíðu Vinnumálastofnunar sé sérstaklega vakin athygli á því að atvinnuleysisbætur séu ekki greiddar afturvirkt.

Í ljósi alls framangreinds sé það afstaða Vinnumálastofnunar að hafna beri beiðni kæranda um að tilfærslu á upphafsdegi umsóknar hans, sbr. 1. mgr. 9. gr. og 1. mgr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að umsókn kæranda skuli taka mið af þeirri dagsetningu sem hann hafi sótt um atvinnuleysisbætur, eða þann 14. febrúar 2023.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja beiðni kæranda um afturvirkar greiðslur atvinnuleysisbóta.

Í 9. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er fjallað um umsókn um atvinnuleysisbætur og er 1. mgr. lagagreinarinnar svohljóðandi:

„Launamönnum og sjálfstætt starfandi einstaklingum er heimilt að sækja um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar þegar þeir verða atvinnulausir. Umsóknin skal vera skrifleg á þar til gerðum eyðublöðum og henni skal meðal annars fylgja staðfesting um stöðvun rekstrar og önnur nauðsynleg gögn að mati Vinnumálastofnunar. Í umsókn skulu koma fram allar þær upplýsingar er varða vinnufærni umsækjanda og þær rökstuddar fullnægjandi gögnum.“

Í 1. mgr. 29. gr. laga nr. 54/2006 kemur fram að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum geti átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í 30 mánuði frá þeim degi er Vinnumálastofnun hafi tekið við umsókn hans um atvinnuleysisbætur, nema annað leiði af lögunum. Í athugasemdum við 29. gr. frumvarps þess sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að miðað sé við að það tímabil sem atvinnuleysisbætur séu greiddar hefjist þegar Vinnumálastofnun móttaki umsókn um atvinnuleysisbætur.

Ljóst er að Vinnumálastofnun tók við umsókn kæranda 14. febrúar 2023 og á kærandi því ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrir þann tíma, sbr. 1. mgr. 9. gr. og 1. mgr. 29. gr. laga nr. 54/2006. Framangreind skilyrði laganna eru ströng og engar undantekningar á þeim þar að finna. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 11. apríl 2023, um að synja beiðni A, um afturvirkar greiðslur atvinnuleysisbóta, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum